fbpx

Fréttabréf

Kæru vinir.

Gleðilegt ár og takk fyrir allan stuðninginn á liðnum árum.

2022 leið kannski án mikilla framkvæmda í Konubókastofu en þó voru haldnar höfundakynningar sem tókust mjög vel. Sveitarfélagið Árborg styrkti þessar kynningar svo hægt væri að greiða höfundunum fyrir. Þó nokkuð margir hópar komu á safnið og ótrúlega margir aðrir gestir kíktu við, bæði innlendir og erlendir. 

Alltaf berast bækur til safnsins. Virk – starfsendurhæfing á Selfossi sér um að skrá bækurnar inn á heimasíðuna. Það samstarf er mjög ánægjulegt og léttir mikið undir. 

Stjórnin hélt stjórnarfund á haustmánuðum hjá Hörpu Rún Kristjánsdóttur stjórnarmeðlimi en hún býr við rætur Heklu. Aðrir í stjórn eru Þorvaldur Gunnarsson, Ólafur Jónsson og Katrín Kjartansdóttir Arndal. Á þessum fundi var tekin ákvörðun um að halda veglega upp á 10 ára afmæli safnsins í apríl 2023 með bókmenntahátíð á Eyrarbakka. Hátíðin mun heita ,,Máttugar meyjar”. Uppbyggingasjóður Suðurlands hefur veitt styrk til hátíðarinnar en það er ekki nóg svo núna verður leitað eftir fleiri styrkjum. Hátíðin verður haldin dagana 22. og 23. apríl. Að mestu mun dagskráin fara fram í Rauða Húsinu á Eyrarbakka og í Skrúfunni en einnig á fleiri stöðum í Sveitarfélaginu Árborg. Fyrri dagurinn verður helgaður börnum og ungu fólki en seinni daginn mun sjónarhorninu verða beint að konum og því sem þær hafa unnið að. Nákvæm dagskrá er í vinnslu.

Að lokum leitum við til ykkar um að styrkja safnið með greiðslu félagsgjalds fyrir árið 2023 eða 3.000 krónur. Reikningurinn mun birtast í heimabankanum undir ,,valgreiðslureikningar”. Einnig er hægt að leggja beint inn á reikning Konubókastofu reikningsnúmer 0325-26-006102 og kennitala 610213-0650. Hver greiðsla er mikill stuðningur fyrir safnið. Sem dæmi er netkostnaður tæpar 7.000 krónur á mánuði og hafa félagsgjöldin dekkað það að mestu leyti. 

Annars horfi ég bjartsýn fram á nýja árið og vona að þið gerið það líka.

Bestu kveðjur til ykkar.

Anna