fbpx

Höfundakynning á Konubókastofu 29.september

Höfundakynning á Konubókastofu laugardaginn 29. september klukkan 14:00.
Sólveig Eggerz mun lesa upp úr bókinni „Forargata“.
Forargata, Reykjavík er skáldsaga sem fjallar um Siggu, kjarkmikla konu sem mátti þola mikið harðræði á uppvaxtarárunum í sveitinni og síðan þrúgandi fátækt í Reykjavík. Hún sér fjölskyldu sinni farborða í kreppunni og bjargar flóttamönnum sem voru gyðingatrúar frá brottrekstri til Þýskalands Hitlers. Ekkert verkefni er henni ofviða–þar til um 50.000 hermenn hreiðra um sig á Íslandi í síðari heimsstyrjöldinni. Hvernig getur hún verndað fallegu rauðhærðu dóttur sína fyrir hermönnum og um leið notað hernámið í eigin þágu?

Hólmfríður Kolbrún Gunnarsdóttir mun lesa upp úr bókinni „…hjá grassins rót“.
Bókin heitir … hjá grassins rót með tilvísun til ljóðs Jóns Helgasonar, Á Rauðsgili:
Enn ég um Fellaflóann geng
finn eins og titring í gömlum streng,
hugann grunar hjá grassins rót,
gamalt spor eftir lítinn fót.

Þetta eru frásagnir af fólkinu mínu og minningamyndir mínar frá því að ég var lítil.
Aftan á kápu.
Maðurinn er aldrei einn. Allir eiga formæður og forfeður sem hvert og eitt á sína sögu. Oft er saga forfeðranna einhvers staðar rakin en saga formæðranna skrifuð í öskuna. Hér segir af fólki sem elskaði og missti, gladdist og hryggðist, tók því sem að höndum bar enda oftast ekki um annað að ræða. Þetta fólk var ekki merkilegra en annað fólk en ekki heldur ómerkara. Þjónustan á Bessastöðum, sem eignaðist barn í lausaleik, sýslumannsdóttirin í Fljótshlíðinni og stúlkan af Laxárdalnum, sem flúði með barnið sitt í fanginu yfir mýrar og móa vestur í Ameríku, eru allar horfnar af sjónarsviðinu.
Höfundur segir sögur þessara kvenna og annarra kvenna og karla sem koma við hennar eigin sögu. Sjálf rifjar hún upp minningar frá því að hún var barn í norðlenskum dal og framtíðin óskrifað blað.

Allir velkomnir. Enginn aðgangseyri en baukur á staðnum fyrir frjáls framlög. Kaffi og konfekt.