fbpx

Safnið

Konubókastofa á Eyrarbakka var formlega opnuð með 200 manna hátíð í Rauða húsinu 25. apríl 2013.

Markmið Konubókastofu er að halda til haga þeim ritverkum sem íslenskar konur hafa skrifað í gegnum tíðina. Um leið er markmið safnsins að verk þess séu aðgengileg þannig að hver og einn geti komið og fræðst um þau og höfunda þeirra. Rannveig Anna Jónsdóttir kaus að kalla safnið stofu þar sem hugmyndin er í framtíðinni að safnið verði staðsett í húsi þar sem gott er að koma og setjast inni í stofu og glugga í safnkost, jafnvel með kaffibolla í hönd. Þetta á að vera stofa með blómlega starfsemi og full af lífi. Húsið á að vera með herbergi sem hægt væri að leigja út til höfunda og fræðimanna.

Markhópur stofunnar er áhugafólk um íslenskar bókmenntir, jafnt innlendir sem erlendir gestir. Þetta verður stofa sem er í sífelldri endurnýjun þar sem bækur halda áfram að koma út í landinu og nýir höfundar bætast því við.

Í janúar árið 2013 útvegaði Sveitarfélagið Árborg Konubókastofu herbergi til afnota í húsinu Blátúni á Eyrarbakka. Bókasafn Árborgar (útibú þess á Eyrarbakka) er einnig í sama húsi.

Margar bækur fylla nú þetta litla herbergi og mikil þörf er á að finna safninu stærra húsnæði. Verk berast til safnsins vikulega og umfjöllun um það hefur verið töluverð. Það er opið tvo tíma tvisvar í viku en einnig eftir samkomulagi. Töluvert er um heimsóknir, bæði einstaklingar og hópar.

Hagsmunafélag Konubókastofu er með marga trausta félaga. Hagsmunafélagi Konubókastofu er ætlað að styðja við starfsemi stofunnar, t.d. með árgjaldinu. Einnig getur hver og einn stutt við starfsemina t.d. með bókasöfnun, kynningu, vinnuframlagi eða hverju sem til fellur í samráði við Konubókastofu. Félagar eru á póstlista og fá þannig að fylgjast með starfseminni. Félagar fá afslátt á viðburði sem haldnir eru á vegum Konubókastofu og eins af minjagripum. Árgjald greiðist tvisvar á ári.

Anna segir að hugmyndin að safninu hafi byrjað að gerjast hjá sér þegar hún var í Bókmenntafræði við Háskóla Íslands og Helga Kress bókmenntafræðingur sýndi nemendum fram á hvað mikið af verkum íslenskra kvenna hefðu farið forgörðum. Mörgum árum seinna var Anna að undirbúa ferð fjölskyldunnar til Englands og rakst þá á safn með ritverk eftir eftir breskar konu eingöngu, og þá skrifuð á tímabilinu 1600 til 1830. Anna heimsótti þetta safn, Chawton House Library, og þegar heim var komið fór hún að safna bókum með það að markmiði að opna safn í þessum dúr á Íslandi.

Nokkrar staðreyndir

Bækur

Höfundar

Anna Jónsdóttir

Rannveig Anna Jónsdóttir, kölluð Anna, er stofnandi safnsins. Hún fæddist á Blönduósi og ólst upp á Snæringsstöðum í Vatnsdal, Austur Húnavatnssýslu. Hún bjó í Danmörku í sex ár og tók stúdentspróf þar. Flutti til Íslands og stundaði nám í Almennri Bókmenntafræði við HÍ. Útskrifaðist þaðan með BA-próf sumarið 1995. Fór þá aftur til Danmerkur og stundaði MA-nám í Æstetik og Kultur 1995-1998. Flutti svo, ásamt fjölskyldu sinni, í Tún á Eyrarbakka og hefur búið þar síðan. Hefur alla tíð haft mikinn áhuga á lestri og bókmenntum ásamt menningarmálum almennt.