fbpx

Bókakynning í Konubókastofu

Sunnudaginn 29. október klukkan 16.
Rithöfundarnir Hlín Agnarsdóttir og Sigríður Hagalín Björnsdóttir munu kynna nýjar bækur sínar.

Einlífi – ástarrannsókn er þriðja bók Hlínar Agnarsdóttur þar sem hún vinnur úr minningum sínum og lífsreynslu. Í þetta sinn gengur hún skrefinu lengra en í hinum tveimur og leyfir skáldskapnum að blanda sér í málin. Mannfræðingurinn Saga Líf fær einlífa rithöfundinn Eyju Björk til að tala um ástalíf sitt í nokkrum viðtölum. Hvernig fer kona að því að finna traust í nánu sambandi eftir að hafa sofið hjá „hinum og þessum“? Er ástin til eða er hún bara uppfinning manneskjunnar?

Deus er fimmta skáldsaga Sigríðar Hagalín. Skáldið Sigfús missir tökin á lífinu þegar hann finnur guð. Unglingurinn Ísabella glímir við stórar og flóknar tilfinningar. Blaðamaðurinn Andri Már þarf að fóta sig á nýjum og ókunnuglegum vettvangi. Örlög þeirra fléttast saman við áform nýsköpunarfyrirtækisins DEUS Technologies um að þróa trúarbrögð sem gervigreind.